top of page

LÍKT OG MÁLVERK

241778664_721350132189225_414370598582397726_n.jpg

Líkt og málverk

minningar vorlangra daga

himinblá augu

æska

kossar

vonir.

 

Augu horfast í augu

hendur sem leiðast

sumarið okkar

tárin

húmið

haustið.

 

Marglitir skuggar

birtu er bregður á glugga

bergmál af vori

lífið

gleðin

ástin.

ÚR REGINDJÚPI

20210326_205039_edited.jpg

Móahrjóstur, mosagróður

í miðju hrauni, að fjallabaki.

Kindagötur, gamlar slóðir

glóir kvika und helluþaki.

 

Eldjötuninn aflið reynir

ógnarkraftar skjálfa, þjóta.

Logahrömmum ljótum beinir

í loftið upp, að brjóta, brjóta.

 

Það sem fyrr var beislað, bundið

brýst nú fram úr regindjúpi.

Kveður við um kvikusundið

undir Keilis þagnarhjúpi.

 

Fagradalsins fjallið græna

finnur bálið magnast, renna.

Allra augu á það mæna,

örlög hörð að springa, brenna.

 

Töfraljós í lofti loga

lyfta anda mínum hærra.

Glampa slær á vík og voga

verður lífið meira, stærra.

241738431_842293229805103_111518744157999366_n_edited.jpg

ÞÖGUL NÓTT

Þögul nótt við úthaf ystu stranda

umlukt grænum friði, dökkum sandi.

Sofa hús og halla lúð mót bakka,

hrossapuntur, sóley, flugnasveimur.

 

Hlaðvarpinn hvar skel og leggur liggja

lítil barnagull úr týndum heimi.

Veðruð þilin, þokkamjúkt við bryggju

þylur aldan sænum forna bálka.

20210716_212648.jpg

ÁN TITILS

Á línunni 

milli lífs og dauða

þú stóðst þar

og gekkst einu skrefi

of langt

239519453_971529683424794_9111700959123969790_n.jpg

SVEITIN I

Rigningin merlar á rúðunni

rútubíllinn hverfur

inn í þokuna

ég sit fullorðinslega

barn með heimþrá

 

Við brúsapallinn bíður amma

ljósin á traktornum

tvær stjörnur

20170805_114514.jpg

ÁN TITILS

Horfðu

inn í augu mín

á meðan

svo ég sjái

að þú sérð

 

að ég sè

þig

© 2023 by Andy Decker. Proudly created with WIX.COM
bottom of page